Umtalsverð umhverfisáhrif

mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

Það er niðurstaða Skipulagsstofnunar að heildaráhrif Kröfluvirkjunar II, Þeistareykjavirkjunar, álvers á Bakka við Húsavík og háspennulína frá Kröflu og Þeistreykjum að álveri á Bakka muni óhjákvæmilega hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif í skilningi laga um mat á umhverfisáhrifum. Þetta kemur fram í nýju sameiginlegu mati Skipulagsstofnunar.

Veruleg óafturkræf náttúruspjöll

Segir í niðurstöðu sameiginlegs mats að í því felst að um er að ræða veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki er hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum. Niðurstaða Skipulagsstofnunar byggir á því að um er að ræða fjórar umfangsmiklar framkvæmdir sem hafa veruleg áhrif á stóru svæði og miðað við markmið framkvæmdanna er mannvirkjum þeirra ætlað að standa til langs tíma og verða áhrif þeirra því varanleg og að stórum hluta óafturkræf.

Framkvæmdirnar munu skerða 17.000 ha af ósnortnum víðernum, sem eru mikilvægt aðdráttarafl í ferðaþjónustu og útivist. Í heildina munu framkvæmdirnar valda röskun á 438 ha lands, skerða 130 ha eldhrauna sem njóta verndar skv. náttúruverndarlögum, skerða 370 ha af grónu landi og þar af rúmlega 38 ha af votlendi sem nýtur verndar skv. náttúruverndarlögum auk þess sem hátt í 100 fornminjar verða í mikilli hættu vegna framkvæmdanna og stór hluti þeirra raskast varanlega.

Mun auka losun gróðurhúsalofttegunda verulega

Framkvæmdirnar munu auka losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi verulega þar sem hlutdeild framkvæmdanna í heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi mun nema um 14% af heildarlosun CO2 - ígilda á ári auk þess að leiða óhjákvæmilega til losunar mengandi efna sem rýra loftgæði.

Skipulagsstofnun telur að niðurstaða matsins leiði í ljós að mikil óvissa sé um áhrif Kröfluvirkjunar II og Þeistareykjavirkjunar á jarðhitaauðlindina.

Skipulagsstofnun telur mikla óvissu vera fyrir hendi um það hvort unnt verði að halda orkuvinnslu svo stórra virkjana eins og fyrirhugaðar eru innan marka sjálfbærni. Skipulagsstofnun telur meiri líkur en minni að orkuvinnslan verði ágeng ef farið verður of hratt í uppbyggingu 150 MWe virkjunar á Kröflu og 200 MWe virkjunar á Þeistareykjum.

Ef álver verður 346 þúsund tonn þá dugar orkan ekki

Þá er ljóst að komi til þess að reist verður álver með 346.000 tonna ársframleiðslu mun það þurfa meiri orku en fæst frá þeim virkjunum sem fjallað er um í hinu sameiginlega mati. Það mun því leiða til enn neikvæðari umhverfisáhrifa, þar sem afla þarf þeirra 140 MW sem vantar upp á til að knýja svo stórt álver.

Ljóst er að framkvæmdirnar munu skapa atvinnutækifæri á svæðinu, en stofnunin hvetur sveitarstjórnir og framkvæmdaraðila til að vinna að raunhæfum áætlunum um samfélagslega uppbyggingu í tengslum við stöðu framkvæmdanna hverju sinni.

Telja að boðaðar mótvægisaðgerðir geti ekki fyrirbyggt né bætt fyrir áhrifin

Framkvæmdaraðilar kynna í matsskýrslum mótvægisaðgerðir og verklag til að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum þeirra, auk þess sem Skipulagsstofnun leggur fram skilyrði vegna einstakra framkvæmda. Í ljósi þess hve framkvæmdirnar munu valda umfangsmiklum áhrifum á stóru svæði er það mat Skipulagsstofnunar að boðaðar mótvægisaðgerðir framkvæmdaaðila geti ekki fyrirbyggt eða bætt fyrir áhrifin og því munu framkvæmdirnar fjórar í heild sinni valda umtalsverðum umhverfisáhrifum.

Sjá nánar hér  um Þeistareyki

Sjá nánar hér um álver Alcoa á Bakka

Sjá nánar hér um Kröflu

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert