„Val manna í þennan starfshóp var ekki ákveðið af ráðherra. Ráðuneytið var með í höndum undirskriftalista og áskoranir frá heimamönnum um að sett yrði bann við botnlægum veiðum í Skagafirði,“ segir í tilkynningu frá Jóni Bjarnasyni sjávarútvegsráðherra vegna deilna um skipan sonar hans.
Eins og rakið hefur verið á mbl.is var sonur Jóns, Bjarni, skipaður í undirhópi sem falið var að meta skýrslu Hafrannsóknastofnunar um dragnótaveiðar.
Er framhaldið í svari Jóns við þeirri gagnrýni svohljóðandi en ekki hefur náðst í ráðherrann þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.
„18. september 2009 óskaði ráðuneytið eftir því að Hafrannsóknarstofnunin, rannsóknarsetrið BioPol og Veiðimálastofnun tilnefndu fulltrúa í starfshóp um málið. Ráðuneytið staðfesti síðan tilnefningar þessara aðila en Hafrannsóknarstofnunin tilnefndi Jón Sólmundsson, BioPol Halldór G. Ólafsson og frá Veiðimálastofnun barst með bréfi dags 25. september tilnefning Bjarna Jónssonar fiskifræðings og starfsmann Veiðimálastofnunar í Skagafirði.“