Íslandspóstur hafnar því að „töluverður misbrestur“ hafi orðið á dreifingu kynningarblaðs vegna kosninga til stjórnlagaþings eins og staðhæft hefur verið í fjölmiðlum síðustu daga.
Dómsmálaráðuneytið sendi kynningarblaðið sem fjölpóst en ekki póst áritaðan með nafni. Prufukjörseðlarnir voru hinsvegar sendir út á nafn allra kjósenda. Því var dreifingin á kynningarblaðinu ekki á hvern íbúa heldur á um 122.000 heimili landsins. Dómsmálaráðuneyti og Íslandspóstur fengu samtals um 180 kvartanir frá fólki sem ekki fékk kynningarblaðið í hendur. Það gerir um 0,15% af heildarfjölda útsendra blaða.
Skoða verður af sanngirni hvernig bréfberum er gert að skila af sér fjölpósti til nokkur þúsund heimila í landinu. Í mörgum eldri fjölbýlishúsum með 2-12 íbúðum, er ein lúga á útidyrahurð sem tekur við öllum pósti í húsið. Það er þá á ábyrgð íbúa að hver og einn taki aðeins eitt eintak úr póstlúgu. Í stærri fjölbýlishúsum er algengt að glær plastkassi taki við öllum fjölpósti í húsið og þar þarf sömuleiðis ekki nema einn íbúi eða gestkomandi að taka eintak, til þess að heimili í því húsi vanti kynningarblað sitt. Að auki standa bréfberar Íslandspósts frammi fyrir því vandamáli á hverjum degi að lúgur séu of litlar til að taka við blaði af þessari stærð eða þá að póstkassar séu svo yfirfullir að engu verði þar við bætt.
Íslandspóstur ætlar sér það ekki að útiloka með öllu undantekningartilvik í eðlilegri dreifingu kynningarblaðsins á öllum stöðum. Biður Íslandspóstur velvirðingar á því, ef sú er raunin. Við slíku má búast í undantekningartilvikum, einkum þegar dreifing er ekki bundin við nafn móttakanda. Óánægja þeirra kjósenda, sem ekki hafa fengið kynningarblaðið í hendur, er vel skiljanleg. Í þeim tilvikum, sem tilkynnt hafa verið, hefur Íslandspóstur séð um sérstaka sendingu til einstaklinga samdægurs eða daginn eftir, jafnvel þó að það hafi ekki verið þáttur í þeirri þjónustu, sem samið var um að Íslandspóstur tæki að sér.