Samninganefnd Starfsgreinasambandsfélaganna á landsbyggðinni kemur saman til fundar á mánudaginn þar sem gengið verður frá meginmarkmiðum og áherslum félaganna í komandi kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins. Einnig verður gengið frá körfugerð sambandsins í heild gagnvart ríkinu.
Fyrsti viðræðufundur Starfsgreinasambandsins við Samtök atvinnulífsins hefur verið boðaður mánudaginn 6. desember n.k. þar sem gagnkvæmar áherslur verða kynntar og ræddar. Þetta kemur fram á vef Starfsgreinasambandsins.
„ Í gær var haldinn samráðsfundur aðila á vinnumarkaði um möguleika á einhverskonar samráði eða sáttmála þeirra á milli að frumkvæði Samtaka atvinnulífsins, sem leggja áherslu á kjarasamning til þriggja ára með „hóflegum kjarabótum“. Skiptst var á skoðunum um hlutverk kjarasamnings í þeirri vegferð sem framundan er við endurreins efnahagslífsins. Í því sambandi er stefnumörkun Alþýðusambandsins skýr: Á ársfundinum í haust var þess krafist „að íslenskum heimilum og fyrirtækjum verði tryggður sami efnahagslegi stöðugleiki og er í þeim löndum sem best standa og við viljum bera okkur saman við. Forsendur þess eru stöðugur gjaldmiðill, ábyrg hagstjórn og traust.“
Skortur á trausti er ein mesta meinsemdin sem þjakar samfélagið í dag.
Öllum er ljóst að efnahagsáfall þjóðarinnar er afleiðing óábyrgrar hagstjórnar og áralangs óstöðugleika. Þeirri þróun verður að snúa við. Efla verður atvinnustigið og auka og tryggja kaupmátt launafólks. Það verður ekki gert nema efnt verði til viðtæks samstarfs og samvinnu stjórnvalda, stjórnarandstöðu, atvinnurekenda og stéttarfélaga á almennum og opinberum vinnumarkaði. Alþingi og ríkisstjórn landsins verða að axla ábyrgð á víðtæku samstarfi með viljann að verki, - en þá þarf viðhorfsbreyting að verða við Austurvöll," segir á vef Starfsgreinasambandsins.