Ríkisstjórnarfundur hófst í stjórnarráðinu kl. 15 í dag, en þar átti að fjalla um tillögur heilbrigðisráðherra um sparnað í heilbrigðismálum. Tillögurnar fara síðan inn í þingflokkana og verða í framhaldinu kynntar fyrir forstöðumönnum heilbrigðisstofnana.
Upphaflega átti að fjalla um tillögurnar á ríkisstjórnarfundi í morgun, en ekki reyndist tími til þess. Ætlunin hafði verið að kynna forstöðumönnum heilbrigðisstofnana tillögurnar síðar í dag, en þeim fundum hefur verið frestað til morguns. Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins var búið að boða forstöðumennina á fund í heilbrigðisráðuneytinu kl. 15.30 í dag en sá fundur var afboðaður með klukkustundar löngum fyrirvara. Einn forstöðumaður sem mbl.is var í sambandi við hafði ekki fengið nýtt fundarboð. „Allar línur loga en enginn veit neitt ennþá,“ sagði hann.
Ekki stórvægilegar breytingar á Landspítalanum
Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður heilbirigðisráðherra, segist ekki geta svarað því hvort tillögurnar gerðu ráð fyrir minni niðurskurði en kom fram í fjárlagafrumvarpinu. Hún sagði að tillögurnar vörðuðu fyrst og fremst sjúkrahúsin út á landi og svokölluð Kragasjúkrahús. Ekki væri gert ráð fyrir breytingum stórvægilegum breytingum á framlögum til Landspítala.
Fram kom í Morgunblaðinu fyrr í vikunni að tillögurnar gerðu ráð fyrir minni niðurskurði hjá stærri sjúkrahúsum á landsbyggðinni, þ.e. sjúkrahúsunum á Akranesi, Ísafirði, Akureyri, Neskaupstað, Selfossi og í Reykjanesbæ. Hlustfallslega mestur verði niðurskurðurinn á sjúkrahúsunum á Sauðárkróki, Siglufirði, Húsavík og Höfn.
Upphaflegar tillögur um sparnað í heilbrigðismálum voru harðlega gagnrýndar og sagði Guðbjartur Hannesson, heilbrigðis- og tryggingaráðherra, fljótlega að tillögurnar yrðu endurskoðaðar.