Fagna dómi yfir Pirate Bay

Snæbjörn Steingrímsson, framkvæmdastjóri SMÁÍS.
Snæbjörn Steingrímsson, framkvæmdastjóri SMÁÍS.

SMÁÍS, Samtök myndrétthafa á Íslandi, fagna staðfestingu áfrýjunardómstóls í Svíþjóð í dag á dómum yfir forsvarsmönnum skráaskiptisíðunnar The Pirate Bay. Vonast þau eftir að íslenskir dómstólar líti til þessa fordæmis í framtíðinni í slíkum málum.

Áfrýjunardómstóll í Svíþjóð staðfesti í dag, að þrír forsvarsmanna sænsku skráaskiptisíðunnar The Pirate Bay skuli sæta fangelsisrefsingu og greiða sekt. Mildaði dómurinn fangelsisrefsinguna en hækkaði sektina og nemur hún  46 milljónir sænskra króna, um 760 milljónum  króna. 

Snæbjörn Steingrímsson, framkvæmdastjóri SMÁÍS, segist mjög ánægður með niðurstöðuna og segir hana gefa sterkt til kynna að Svíar ætli ekki að kvika frá hversu alvarlega þeir líta á þessi brot.

„Við fögnum þessu því að íslenskir dómstólar, eins og allir dómstólar á Norðurlöndum, horfa hver til annars með mál sem teljast til fordæmismála. Við vonum bara að dómar hér í landi verði í framtíðinni meira í átt við þennan,“ segir Snæbjörn. 

Snæbjörn segist heyra að utan að dómnum verði líklega áfrýjað til hæstaréttar en áhugavert sé að þeir hafi ekki verið dæmdir fyrir bein brot á höfundarrétti heldur fyrir að aðstoða aðra við að brjóta gegn slíkum rétti. Ekki hafi verið skýrt í lögum hvorki hér né á Norðurlöndunum um aðild að slíkum brotum.  

Hann telur þó áhrifin á síðuna aðeins verða tímabundin.

„Eftir því sem ég kemst næst er síðan hýst hjá [sænska stjórnmálaflokknum] Pirate Party samhliða Wikileaks-vefnum. Það verður farið á eftir þeim en af því að þeir fengu að vaxa og dafna svo lengi þá eru þetta orðnir moldríkir menn í dag,“ segir Snæbjörn.

Ef vefurinn fari niður muni hann bara opna í öðru landi. Snæbirni þykir ekki ólíklegt að eigendaskipti verði á síðunni því menn geti ekki lifað af slíkar fésektir endalaust. Þá gætu rétthafar í Bandaríkjunum enn farið í skaðabótamál við þá en það hafa þeir ekki gert hingað til. Þá gætu sektarupphæðirnar verði mun hærri.

„Þessi dómar eru farnir að færast yfir í það að upphæðirnar eru farnar að endurspegla aðeins meira verðmæti þess efnis sem fer þarna um þó að þetta sé bara brotabrot af því. Þá eru þetta samt alvöru upphæðir sem menn lifa ekki endalaust af að þurfa að borga,“ segir Snæbjörn. 

Þrír forsvarsmenn Pirate Bay, þeir Fredrik Neij, Gottfrid Svartholm Warg …
Þrír forsvarsmenn Pirate Bay, þeir Fredrik Neij, Gottfrid Svartholm Warg og Peter Sunde. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert