Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, spurði í samtali við BBC hvort evrópsk alþýða yrði spurð að því hvort hún vildi bjarga einkabönkum. Þá líkti hann íslensku bönkunum við segulstál sem hefðu sogað til sín hæft fólk.
Með gagnrýni sinni á ruðningsáhrif íslensku bankanna setti forsetinn stærð þeirra í samhengi við smæð íslensks samfélags en ummælin má túlka sem lið í uppgjöri hans á útrásarskeiðinu.
Mikið vatn hefur því runnið til sjávar frá því að Guðjón Friðriksson rifjaði upp í bók sinni, Saga af forseta, sem kom út skömmu eftir hrunið að breska dagblaðið Observer hefði lýst forsetanum sem svo að hann væri í forsvari fyrir „eina kraftmestu fjárfestingarvél heims“. Fyrir aðeins nokkrum misserum taldi forsetinn þörf á að leggja sitt af mörkum í þágu orðspors íslensku bankanna erlendis en nú gagnrýnir hann þá opinberlega í einum helsta fjölmiðli heims.
Forsetinn var eindreginn stuðningsmaður alþjóðlegrar bankastarfsemi en setur nú spurningarmerki við að evrópsk alþýða borgi brúsann af falli einkabanka. Evrópa hafi fært mannkyninu lýðræði og mannréttindi. Því snúist viðbrögð við kreppunni um hin lýðræðislegu vinnubrögð í uppgjörinu á bankakreppunni.
Á elítan að ráða?
Forsetinn spurði í samtali við BBC hvort elítan ætti að ráða því hvernig brugðist verður við bankakreppunni í Evrópu. Hlýða má á viðtalið á BBC hér.
„Og þegar ég les sum ummælin í dag og í gær um erfiðleikanna í mörgum evrópskum ríkjum virðist mér sem margir gleymi að þetta er í eðli sínu lýðræðislegt vandamál. Það er spurning hvort vilji sé til að leyfa fólkinu innan ríkjanna að raunverulega ákvarða framtíðina. Eða á að stjórna lausnunum með kænsku (e. maneuver the solutions) með samstöðu elítunnar í fjármálum og stjórnmálum á efsta þrepi, bæði innan Evrópu og annarra ríkja? [...] [V]egna þess að framlag Evrópu varðar meira lýðræði og mannréttindi en fjármálamarkaði.“
Íslensku bankarnir hefðu komið Íslandi í erfiða stöðu: „En þú gætir einnig fært rök fyrir því að fyrir fjórum til fimm árum hafi hún [krónan] orðið hluti af vandamálinu með því að leyfa bönkunum að koma okkur í þessa stöðu.“
Opnun útibús seinkað fyrir forsetann
Síðan hefur margt breyst og voru tengsl forsetans við bankanna svo náin að opnun útibús Kaupþings var frestað svo hann gæti verið viðtaddur. Orðrétt segir á blaðsíðu 465 í Sögu af forseta:
„Útrás íslenskra banka til útlanda hófst sama árið og Ólafur Ragnar varð forseti Íslands eða 1996. Þá stofnaði einkafyrirtækið Kaupþing dótturfyrirtæki í Lúxemborg. Um svipað leyti varð Sigurður Einarsson, 36 ára gamall viðskiptafræðiingur, forstjóri Kaupþings.
Það var upphafið að glæsilegum ferli hans sem bankamanns en undir stjórn hans hefur núverandi Kaupþing banki breyst úr litlu fjármálafyrirtæki í stærsta fyrirtæki á Íslandi og einn af stærstu bönkum á Norðurlöndum með starfsemi í 10-15 löndum. Þar var djarft siglt. Frá árinu 2000 hefur Ólafur Ragnar unnið með Sigurði Einarssyni að mörgum málum, bæði í þágu bankans og annarra málefna. Má telja Sigurð meðal helstu samstarfsmanna forsetans á síðari árum.“
Í framhaldinu er vikið að því að Kaupþing hafi seinkað opnun fyrsta útibús síns í Lúxemborg svo forsetinn gæti verið viðstaddur.
„Svo mikið kapp lögðu forsvarsmenn Kaupþings á að forsetinn væri viðstaddur að þeir buðust til að hnika til dagsetningu vígsluhátíðarinnar ef það hentaði forsetanum betur. Sú varð líka raunin.“
Taldi útrásina lið í þróun nútímalegs hagkerfis
Þá er vikið að vígsluræðu forsetans.
„Í ávarpi við vígsluhátíðina í Lúxemborg sagði Ólafur Ragnar að bankinn þar væri nýtt skref í þróun nútímalegs hagkerfis á Íslandi. Opnun hans sýndi að Íslendingar ætluðu að nýta til fulls þau tækifæri sem breytt fjármálakerfi heimsins byði upp þá. Þar reyndist hann sannspár.“
Rifjuð er upp þátttaka forsetans á 170 manna viðskiptaráðstefnu, „Iceland in London - Partnering for Success“ í maí 2006 en þar komst hann svo að orði í viðtali við Ásgeir Tómasson, fréttamann RÚV, er hann var spurður hvort hann teldi þörf á að gefa íslensku viðskiptalífi „heilbrigðisvottorð“ með þátttöku sinni.
„Já, mér finnst þörf á því vegna þess að orðspor viðskiptalífsins á Íslandi, orðspor efnahagslífsins, er orðið það mikilvægt fyrir það álit sem við Íslendingar njótum í veröldinni að það er alveg nauðsynlegt fyrir forsetann að rétta þar hjálparhönd.“