Geta Írar lært af reynslu Íslendinga í efnahagserfiðleikum er spurning sem Theo Leggett, blaðamaður BBC, ber upp í myndskeiði um stöðu efnahagsmála á Íslandi. Leggett segir að Ísland hafi í áratugi verið efnahagslegur afdalur en að hagkerfið hafi á skömmu tíma umbreyst með einkavæðingu bankanna.
Leggett segir að um hríð hafi Íslendingar baðað sig upp úr peningum (e. awash in cash) og kaupæði runnið á fyrirtæki landsins sem fjárfestu erlendis. Síðan hafi allt hrunið.
Frá efnahagshruninu hafi hins vegar tekist að endurreisa bankakerfið og auka útflutning á ný.
Jan Randolph, stjórnandi hjá IHS Global Insight, segir að Íslendingar njóti m.a. góðs af útflutningi álvera sem stuðli að jákvæðum viðskiptajöfnuði.
Heimili landsins og einkageirinn séu á hinn bóginn ekki farinn að leggja sitt af mörkum til vaxtar hagkerfisins.
Að sögn blaðamannsins Leggett er munurinn á Írlandi og Íslandi sá að Íslendingar hafi fellt gengi gjaldmiðils síns og þannig örvað útflutning, á meðan Írar búi við fastgengi evrusvæðisins.
Myndskeiðið má nálgast hér.