Fréttaskýring: Ólafur Ragnar gæti haldið áfram

Ólafur Ragnar Grímsson ræðir við erlenda fjölmiðlamenn eftir að hafa …
Ólafur Ragnar Grímsson ræðir við erlenda fjölmiðlamenn eftir að hafa greitt atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave í mars. Guðni telur forsetann hafa haft áhrif á afstöðu Breta og Hollendinga til samningaviðræðna. Kristinn Ingvarsson

„Steingrímur J. mun örugglega hugsa sem svo að „blaðrið“ í Ólafi Ragnari sé að verða efnahagsvandamál og minnast þá sömu orða Ólafs Ragnars um Steingrím Hermannsson,“ segir Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur í viðtali um stöðu forsetaembættisins í ljósi nýjustu ummæla forsetans á alþjóðavettvangi.

Eins og rakið hefur verið á fréttavef Morgunblaðsins í dag hvatti Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, evrópska alþýðu til að huga að lýðræðislegum rétti sínum í samtali við útvarp breska útvarpsins, BBC, sem birt var í dag. Þá ræddi forsetinn Icesave-deiluna við Bloomberg-fréttaveituna og urðu fréttir af því samtali tilefni yfirlýsingar frá forsetaembættinu um að ekkert nýtt kæmi þar fram um afstöðu forsetans til málsins.

Brýtur blað í sögu embættisins

Guðni, sem fór yfir forsetaferil Ólafs Ragnars í grein í Skírni fyrr á árinu, telur að Ólafur Ragnar hafi gjörbreytt embættinu. 

„Ólafur Ragnar hefur gerbreytt eðli embættisins og þróað það í allt aðra átt en það var að gera, sérstaklega í tíð Kristjáns [Eldjárns] og Vigdísar [Finnbogadóttur]. Að vísu var Sveinn Björnsson fyrsti forsetinn með ákveðnar skoðanir í utanríkismálum og raunar Ásgeir Ásgeirsson líka en hvorugur lét eins mikið til sín taka á forsetastóli. Ólafur Ragnar hefur því án nokkurs vafa brotið blað í sögu embættisins.“

- Þú raktir forsetaferil Ólafs Ragnars í nýlegri grein í Skírni. Hvernig myndirðu túlka ummæli hans á BBC í dag í ljósi forsetatíðar hans fram að þessu?

„Þetta er meira af því sama. Ólafur Ragnar lítur svo á að hann hafi sjálfstæða rödd í utanríkismálum og að hann þurfi ekki að hafa miklar áhyggjur af því hvort sú rödd er á sömu línu og ríkisstjórnin eða ekki. Hann lítur svo á að hann sé algjörlega sjálfstæður og geti sagt sinn hug í þessum efnum.“

Forsetinn hefur áhrif á Icesave-samninga

- En er forsetinn sjálfstæður í utanríkismálum? Nú fyrr í dag kom árétting frá Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra um að ummæli forsetans um Icesave-deiluna endurspegluðu ekki afstöðu ríkisstjórnarinnar? Í kjölfarið kom árétting frá forsetaembættinu um að það hefði ekkert breyst í málflutningi forsetans frá ræðu hans 1. október sl. og að þess vegna væri fréttaflutningurinn oftúlkun. Getur forsetinn haldið því fram að hann tali sjálfstæðri röddu í utanríkismálum?

„Hann heldur því fram og öll hans embættisfærsla er á þann veg að hann lítur svo á að hann megi segja það sem hann vill og telur réttast. Og auðvitað fer það ósegjanlega í taugarnar á Steingrími J., þótt hann segi það ekki berum orðum, að hlutirnir séu flæktir svona, enda var það þannig að eftir að Ólafur Ragnar synjaði Icesave-lögunum staðfestingar að sjónarmið Hollendinga og Breta hefur verið að það verði að liggja fyrir næst þegar samningum er lokið við íslensk stjórnvöld að hægt sé að ganga að velþóknun forsetans vísri.

Bretar og Hollendingar vilja ekki vinna baki brotnu að einhverju samkomulagi og eiga svo það á hættu að forsetinn segi „Nei mér lýst ekki á þetta“ og allt verði tekið upp aftur. Það er augljóst að Bretar og Hollendingar vilja ekki sjá þá atburðarás.“

Orð forsetans hafa afleiðingar

- Þannig að forsetinn hefur afleiðingar með ummælum sínum?

„Já. Steingrímur J. mun örugglega hugsa sem svo að blaðrið í Ólafi Ragnari sé að verða efnahagsvandamál og minnast þá orða Ólafs Ragnars um Steingrím Hermannsson.“

Fær ekki sömu athygli og Cantona

- Nú er umræða um hugsanlegar breytingar á valdsviði forsetans meðal hugðarefna nokkurra frambjóðenda til stjórnlagaþings á morgun. Þessi umræða er innanlandsmál. Hvernig heldurðu að litið sé á ummæli forsetans erlendis þar sem þekking á valdsviði hans er takmarkaðri, svo sem þegar hann hvetur til þess að evrópsk alþýða gæti að rétti sínum gagnvart viðleitni til að hjálpa skuldugum bönkum?

„Hann fær örugglega ekki sömu athygli og Eric Cantona sem hefur verið að lýsa því sama yfir, knattspyrnusnillingurinn sem gerði garðinn frægan hjá Manchester United, en þetta er auðvitað sjónarmið sem nýtur stuðnings hjá almenningi víða í álfunni. Batnandi mönnum er besta að lifa því Ólafur Ragnar var auðvitað mjög mikill vinur útrásarvíkinga og aðdáandi og hefur lýst því yfir að þeir hafi blekkt hann og platað.“

Geta dregið þá ályktun að forsetinn sé valdamaður

- Þegar útlendingur heyrir þessi ummæli, til að mynda Breti, að forseti Íslands hafi skoðun á því hvað evrópskur almenningur eigi að gera út frá mannréttinda- og lýðræðishefð í Evrópu, telurðu að sá hlustandi, þ.e.a.s. viðtals BBC, líti svo á að þetta sé þá stefna íslenskra stjórnvalda?

„Það má vel vera því hinn venjulegi Breti sé ekki með það í kollinum hvernig stjórnskipan Íslands er háttað þannig að þegar hann hlustar á forseta Íslands á BBC að þá áttar hann sig kannski ekki á því hvort að þarna talar maður sem er eins og forseti Frakklands eða Bandaríkjanna, eða áhrifaminni forseti eins og forsetinn í Þýskalandi er öllu jöfnu, eða eitthvað slíkt. Því hafa hlustendur væntanlega hugsað með sér að þarna talaði æðsti pólitíski embættismaðurinn á Íslandi.“

Spennandi að sjá hver verður forseti næst

- Telurðu að þetta verði síðasti forsetinn sem muni láta svo mikið til sín taka á alþjóðavettvangi?

„Ég held að það verði mjög spennandi að sjá hvernig forseta Íslendingar kjósa sér á eftir Ólafi Ragnari og hvort það verður pólitískur forseti eins og hann, kona eða karl, sem lýsti því yfir að hann eða hún taki virka afstöðu í álitamálum, eða hvort það verður forseti sem sver sig meira í ætt við Kristján Eldjárn og Vigdísi Finnbogadóttur, svona menningarforseti og kannski meira sameiningartákn. Því að fórnarkostnaðurinn við að taka þátt í straumum sinnar tíðar, eins og Ólafur Ragnar hefur komist að raun um, er að forsetinn missir þá sameiningartáknið úr höndunum á sér.“

Gæti setið áfram

- Heldurðu að þetta sé síðasta kjörtímabil Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands?

„Kannski ekki. Maður segir bara „You ain't seen nothing yet“,“ segir Guðni og vísar til frægra ummæla um umsvif íslenskra athafnahafnamanna í Bretlandi á fundi með bresku og íslensku viðskiptafólki í Lundúnum á útrásarárunum.

Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur hefur mörg járn í eldinum. Hann …
Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur hefur mörg járn í eldinum. Hann er nýbúinn að senda frá sér bók um Gunnar Thoroddsen. mbl.is/Einar Falur
Guðni telur að ummæli forsetans muni ekki vekja sömu athygli …
Guðni telur að ummæli forsetans muni ekki vekja sömu athygli og hvatning Eric Cantona um að almenningur geri áhlaup á banka með því að taka út sparifé sitt. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert