Frá því að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir forsætisráðherra tók við völdum 1. febrúar 2009 hafa ráðherrar hennar skipað 252 nefndir og starfshópa. Þar af eru um 100 skipaðar samkvæmt lögum, en 150 eru skipaðar að frumkvæði ráðherra.
Þetta kemur fram í svari forsætisráðherra við fyrirspurn frá Birgi Ármannssyni, alþingismanni Sjálfstæðisflokks.
Þær nefndir sem ráðherrar hafa skipað að eigin frumkvæði á þeim 22 mánuðum sem liðnir eru frá því stjórnarskipti urðu eru 150. Jóhanna Sigurðardóttir hefur verið duglegust að skipa nefndir eða 24, en þar á eftir kemur Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra með 20 nefndir, Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra með 18 nefndir og Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, með 14 nefndir.