Þarf ekki að greiða virðisaukaskatt

Bolafjall.
Bolafjall. mynd/bb.is

Varnarmálastofnun þarf ekki að greiða virðisaukaskatt af orkureikningum stofnunarinnar að því er fram kemur í dómi Héraðsdóms Reykjaness í morgun. Ágreiningur var um hvort stofnunin ætti að greiða virðisaukaskatt af reikningum frá Orkubúi Vestfjarða vegna ratsjárstöðvar á Bolafjalli.

Orkubú Vestfjarða þarf að greiða hálfa milljón króna í málskostnað,  að meðtöldum virðisaukaskatti.

Varnarmálastofnun keypti orku af Orkubúi Vestfjarða vegna starfsemi ratsjárstöðvar á Bolafjalli ofan Bolungarvíkur. Ágreiningur var um hvort greiða ætti virðisaukaskatt af reikningunum vegna tímabilsins ágúst 2008 til ágúst 2009 en Varnarmálastofnun greiddi alla reikninga frá Orkubúi Vestfjarða á þessu tímabili án virðisaukaskatts. 

Dómurinn segir, að ný varnarmálalög hafi tekið gildi í lok maí 2008 en þá tók Varnarmálastofnun formlega við þeim varnar- og öryggistengdu verkefnum, sem fram að því höfðu verið í höndum Bandaríkjahers.

Í lögunum segir: „Öryggis- og varnarsvæði, ásamt mannvirkjum íslenska ríkisins, Atlantshafsbandalagsins eða Bandaríkjanna þar, og starfsemi þeim tengd, skulu undanþegin öllum opinberum gjöldum, þ.m.t. vegna kaupa á vöru og þjónustu til viðhalds og rekstrar. Þá eru mannvirkin undanþegin skyldutryggingu fasteigna.“

Í greinargerð með lagafrumvarpinu sagði að eðli málsins samkvæmt falli virðisaukaskattur undir hugtakið opinber gjöld í ákvæðinu. Segir héraðsdómur því óumdeilt að stofnunin hafi ekki þurft að greiða virðisaukaskatt.

Samkvæmt breytingu á varnarmálalögum, sem samþykkt var í sumar, verður Varnarmálastofnun lögð niður um áramótin og utanríkisráðuneytið tekur við verkefnum hennar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert