Blaðið Fréttatíminn birtir í dag minnisblað, sem Guðni Bragason, sendifulltrúi, skrifaði um fund sem hann og Helgi Ágústsson, þáverandi sendiherra í Washington, áttu með Heather Conley, þáverandi aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna 18. mars 2003. Á fundinum var skýrt frá stuðningi íslenskra stjórnvalda við fyrirhugaðar hernaðaraðgerðir Bandaríkjamanna gegn Írak.
Minnisblaðið var ekki meðal þeirra gagna, sem íslenska utanríkisráðuneytið birti nýlega og tengdust aðdraganda hernaðaraðgerðanna í Írak en Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra réðust inn í landið aðfaranótt 20. mars.
Í minnisblaðinu segir að Helgi hafi á fundinum upplýst um nýja ákvörðun varðandi afstöðu íslenskra stjórnvalda þennan dag. Ákveðið hefði verið að styðja aðgerðirnar og að nefna mætti Ísland á lista yfir stuðningsríki. Síðar sama dag las blaðafulltrúi bandaríska utanríkisráðuneytisins upp lista á blaðamannafundi yfir 30 ríki sem styddu opinberlega bandalag þjóða um tafarlausa afvopnun Íraka. Var Ísland þar á meðal.
Í minnisblaðinu segir, að Helgi hafi minnst á að Ísland gæti orðið skotmark hryðjuverkamanna vegna stuðningsins. Cowley hafi tekið undir þetta og sagt að bandarísk stjórnvöld tækju hótanir Íraka um hefndaraðgerðir alvarlega.
Þá kemur fram í minnisblaðinu, að Helgi vísaði til viðræðna skrifstofustjóra alþjóðaskrifstofu utanríkisráðuneytisins við sendifulltrúa bandaríska sendiráðsins í Reykjavík þennan dag, þar sem skrifstofustjórinn hefði vakið athygli á því að á sama tíma og Bandaríkjastjórn væri að leita eftir stuðningi Íslendinga við hernaðaraðgerðir væru uppi fyrirætlanir um breytingar á vörnum Ísland, sem íslensk stjórnvöld teldu kippa stoðunum undan vörnum landsins.
Sagðist Cowley skilja vel að þessar spurningar kæmu fram hjá Íslendingum og teldi þær sanngjarnar. Bandaríkjastjórn áttaði sig vel á því, að stuðningur ríkja við aðgerðirnar væri nokkru verði keyptur. Segir Guðni, að skilja hafi mátt á Cowley að stuðningur íslenskra stjórnvalda myndi hafa jákvæð áhrif á umfjöllun bandaríska utanríkisráðuneytisins um málefni, sem útistandandi væru í varnarsamstarfi ríkjanna, hver svo sem niðurstaðan yrði.