Veiðiheimildir gegn gjaldi

Á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun kynnti Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra frumvarpsdrög um úthlutun á ákveðnu magni af f þorski, ýsu, ufsa, löngu, keilu, gullkarfa, makríl, norsk-íslenskri síld og íslenskri sumargotssíld til skipa sem hafa veiðileyfi. Útgerðir munu þurfa að greiða tiltekið gjald fyrir aflaheimildirnar sem renna mun í ríkissjóð eða til tiltekinna verkefna.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er áætlað að tekjur ríkisins af slíkri úthlutun framhjá aflamarki yrði 2-3 milljarðar króna miðað við heilt ár og mun vísað til verkefna á landsbyggðinni í þessu sambandi. Ákvörðunin kæmi  til framkvæmda um leið frumvarpið yrði að lögum frá Alþingi.

Jón Bjarnason sagði á aðalfundi Landssambands smábátaeigenda í október, að hann ætlaði að leggja til að ráðherra fái heimild til að úthluta ákveðnu magni af þorski, ýsu, ufsa, gullkarfa og íslenskri sumargotssíld gegn gjaldi í ríkissjóð. 

Sagði Jón þá, að mikilvægt væri að kanna til fullnustu möguleika á að rýmka heimildir til veiða og veiðistýringar og þá jafnframt að skapa þjóðinni auknar beinar tekjur af auðlindinni. Ekki muni af veita til þess að unnt sé að vinna á móti þeim mikla niðurskurði sem boðaður hafi verið á grunnþjónustu, eins og til dæmis heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert