Vilja samstarf við ábyrga aðila

Mögulegt samstarf í kjaraviðræðum var rætt á fundi í gær.
Mögulegt samstarf í kjaraviðræðum var rætt á fundi í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Um hádegisbil í gær voru 13.923 án atvinnu á Íslandi skv. vef Vinnumálastofnunar. Samtök atvinnulífsins óska eftir samstarfi við ábyrga aðila um að hefjast handa við að kveða atvinnuleysið niður. Það er ekki eftir neinu að bíða, segir á vef samtakanna.

„Flestir kjarasamningar á almenna og opinbera markaðnum renna út í lok þessa mánaðar eða þess næsta. Samtök atvinnulífsins hafa lagt áherslu á að stefnt verði að gerð kjarasamninga allra aðila til þriggja ára með með hóflegum launahækkunum. Forsenda þess er að verðbólga verði lág og séð verði fram á styrkingu krónunnar.  Sameiginleg markmið verði auknar fjárfestingar og vöxtur, einkum í útflutningsgreinum, og fjölgun starfa. Þar með verði hægt að komast út úr vítahring skattahækkana og niðurskurðar.

Mögulegt samstarf aðila vinnumarkaðarins í komandi kjarasamningaviðræðum var rætt á sameiginlegum fundi síðdegis í gær. Magnús Pétursson, ríkissáttasemjari, stýrði fundinum en fulltrúar bæði almenna og opinbera markaðarins sóttu fundinn.

Á fundinum kynntu Samtök atvinnulífsins kjarastefnu samtakanna og undirstrikuðu mikilvægi þess að samstaða skapist um að skapa störf, auka kaupmátt fólks og koma Íslandi út úr kreppunni.  Ríkissáttasemjari mun á næstu tveimur vikum kalla eftir sjónarmiðum þeirra fjölmörgu samtaka sem eru á vinnumarkaðnum og kanna hvort grundvöllur sé fyrir því ræða sameiginlega um tiltekin mál og leggja grunn að endurreisnaráætlun á vinnumarkaði. Stefnt er að öðrum fundi eftir hálfan mánuð," segir á vef SA.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert