Kjörsókn er mun minni í Reykjavík í kosningunum til stjórnlagaþings en í þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave-lögin. Kl. 17 voru um 21% kjósenda búin að kjósa, en á sama tíma voru um 38% búnir að kjósa í þjóðaratkvæðagreiðslunni.
Kl. 17 höfðu 20% kjósenda í Reykjavík-norður kosið en 36% höfðu kosið um Icesave-lögin á sama tíma í fyrravetur. Í Reykjavík-suður höfðu 22% kosið kl. 17 en 39,3% um Icesave-lögin.
Katrín Theodórsdóttir, sem á sæti í kjörstjórn í Reykjavík, segir að framkvæmd kosninganna hafi gengið vel. Kjörstjórn hafi verið með talsverðan viðbúnað vegna þess að menn hafi ekki vitað fyrir víst hversu langan tíma tæki fyrir fólk að kjósa. Þetta hafi hins vegar allt gengið vel. Engar biðraðir hafi myndast og sárafáar kvartanir borist.
Samkvæmt upplýsingum mbl.is virðist talsvert vanta upp á það að yngra fólk skili sér á kjörstað. Þeir sem eldri eru séu enn sem komið er í meirihluta þeirra sem kosið hafa.