Búið er að fjarlægja yfir 30.000 m³ úr hafnarmynni Landeyjahafnar og rennunni fyrir utan það. Dýpkun hefur gengið vel að undanförnu og merki eru um að verulega sé að draga úr sandburði.
Siglingastofnun er að semja við Íslenska gámafélagið um að fá nýtt dýpkunarskip til landsins, Skandia, en það á að geta dýpkað í allt að tveggja metra ölduhæð. Skandia er í slipp í Danmörku þar sem fer fram reglubundin skoðun á botninum og síðan verður skipið málað.
Þrátt fyrir að geta unnið í tveggja metra ölduhæð mun Landeyjahöfn lokast oft í vetur, vegna þess ójafnvægis sem er á ströndinni út af gosinu í vor.