„Ef það er rétt, sem fram kemur hjá ykkur á netinu, varðandi þessi frumvarpsdrög, þá er þetta bara dæmi um kommúnismann í framkvæmd,“ sagði Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna, í samtali við Morgunblaðið í gær.
Hann var þá í flugvél á flugvellinum í Osló í Noregi og rétt í þann mund að leggja af stað til Íslands og hafði ekki náð að kynna sér frumvarpsdrög Jóns Bjarnasonar sjávarútvegsráðherra sem hann lagði fram á ríkisstjórnarfundi í gær.
„Við höfum dregið verulega úr aflaheimildum núna til að byggja upp þorskstofninn og það hafa verið mjög sársaukafullar aðgerðir. Auðvitað ætla menn síðan að njóta þess þegar uppbyggingin tekst. Ef þetta er raunin þá er það algjörlega á skjön við allt sem íslensk fiskveiðistjórnun og sjávarútvegur hefur gengið út á síðustu áratugina. Það er nauðsynlegt að þeir sem stunda veiðar hafi það að leiðarljósi að ganga vel um fiskistofnana með langtímamarkmið í huga. Það er mikilvægt að ráðherra sjávarútvegsmála geri sér grein fyrir þessu,“ sagði Friðrik.
Á fundi ríkisstjórnarinnar í gær kynnti Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra frumvarpsdrög um úthlutun á ákveðnu magni af f þorski, ýsu, ufsa, löngu, keilu, gullkarfa, makríl, norsk-íslenskri síld og íslenskri sumargotssíld til skipa sem hafa veiðileyfi. Útgerðir munu þurfa að greiða tiltekið gjald fyrir aflaheimildirnar sem renna mun í ríkissjóð eða til tiltekinna verkefna.
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er áætlað að tekjur ríkisins af slíkri úthlutun framhjá aflamarki yrði 2-3 milljarðar króna miðað við heilt ár og mun vísað til verkefna á landsbyggðinni í þessu sambandi. Ákvörðunin kæmi til framkvæmda um leið frumvarpið yrði að lögum frá Alþingi.