Gert er ráð fyrir að skorið verði niður á sjúkrahúsum á landsbyggðinni um 570 milljónir króna á árinu 2012, en 1,3 milljarða á næsta ári. Hvergi veriður skorið meira en 12% niður á næsta ári.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu. Ríkisstjórnin staðfesti tillögur heilbrigðisráðherra á fundi sínum í gær. Þingflokkar ríkisstjórnarinnar eiga eftir að fjalla um tillögurnar, en að því búnu verða þær lagðar fram í fjárlaganefnd.
Í fréttatilkynningunni segir: „Faghópur á vegum Guðbjarts Hannessonar, heilbrigðisráðherra, hefur á síðustu vikum fundað með stjórnendum og fagfólki á heilbrigðisstofnunum til að leggja mat á möguleika heilbrigðisstofnana til þess að mæta hagræðingarkröfum samkvæmt fjáralagafrumvarpinu. Ráðherra hafði við framlagningu frumvarpsins kynnt ákveðna fyrirvara sem hann gerði við þennan þátt frumvarpsins. Hann fól í kjölfarið faghópi að yfirfara útfærslur stofnananna á aðgerðum til að mæta kröfum um hagræðingu, fá mat þeirra á áhrifum á öryggi íbúa, sjúkraflutninga, almenna heilbrigðisþjónustu og öldrunarþjónustu á hverju svæði fyrir sig. Faghópurinn kynnti ráðherra niðurstöður sínar í gær og eru boðaðar breytingar á fjárlagafrumvarpinu byggðar á þeim.
Forsendur aðgerða eru óbreyttar að því leyti að staðinn er vörður um grunnþjónustu og heilsugæslan sett í öndvegi sem fyrsti viðkomustaður í heilbrigðiskerfinu. Sérhæfðri sjúkrahúsþjónustu á Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri er hlíft en dregið saman á sjúkrasviðum heilbrigðisstofnana sem veita almenna sjúkrahúsþjónustu. Aftur á móti gera tillögurnar ráð fyrir mun minni samdrætti útgjalda en upphaflega var ráðgert í fjárlagafrumvarpi. Hagræðingarkrafa gagnvart heilbrigðisstofnunum samkvæmt fjárlagafrumvarpinu nam rúmum þremur milljörðum króna en verður um 1,9 milljarðar. Gert er ráð fyrir að hagræðingarkrafa ársins 2011 verði um 1,3 milljarðar króna en að kröfu um frekari hagræðingu sem nemur um 570 milljónum króna verði frestað til ársins 2012.
Í tillögunum er byggt á því að rekstrargrundvöllur einstakra stofnana verði leiðréttur miðað við skilgreint hlutverk þeirra í lögum um heilbrigðisþjónustu, með tilliti til núverandi starfsemi. Í þessu felst meðal annars að greiðslur fyrir rými á heilbrigðisstofnunum verða reiknaðar út frá meðaldaggjaldi fyrir hjúkrunarrými aldraðra árið 2010 að viðbættu 15% álagi. Að auki er reiknað viðbótarálag vegna smæðar eininga og fjölda útstöðva eftir því sem það á við. Loks er lagt mat á fjölda stöðugilda sem talinn er nauðsynlegur hverri stofnun vegna skurð-, fæðingar- og stoðdeildaþjónustu miðað við þjónustuna sem þar er veitt. Með þessu er reynt að færa greiðslur fyrir hvert sjúkrarými eins nærri raunkostnaði og kostur er.“