Verðmætasta fólkið að fara

Guðmundur Gunnarsson, formaður RSÍ.
Guðmundur Gunnarsson, formaður RSÍ. mbl.is

Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambandsins, segir að það sé misskilningur að það fólk sem sé að flytja úr landi sé fólk sem ekki er með vinnu. Þeir sem séu að fara sé velmenntað fólk á besta aldri, þ.e. verðmætasta fólkið.

10.612 fluttu af landi brott á síðasta ári, en 5.777 fluttu til landsins. Brottfluttir umfram aðflutta eru því 4.835. Tæplega 6.000 manns hafa flutt af landi brott það sem af er ári en á sama tíma hafa rúmlega 2.500 manns flutt til landsins.

Guðmundur sagði greinilegt að fólksflutningar til útlanda héldu áfram. „Fólk er að gefast upp á ástandinu. Það er hins vegar ekki atvinnulausa fólkið sem er að fara. Það er verðmætasta fólkið sem er að fara. Formaður BHM hefur lýst sömu upplifun. Háskólamenntað fólk með vinnu er að fara úr landi. Þetta fólk sættir sig ekki við að það sé verið að skerða alla þjónustu við barnafjölskyldur á sama tíma og skattar eru að hækka,“ segir Guðmundir.

„Miðað við þær tillögur sem stjórnvöld eru með í dag í skattamálum þá rýrna ráðstöfunartekjur heimilanna um 30 milljarða á næsta ári. Það þýðir að þessir 30 milljarðar fara ekki inn í hagkerfið. Þeir fara bara beint inn í ríkissjóð sem þýðir enn meiri samdrátt. Hvorki fyrirtækin eða heimilin fara að framkvæma neitt undir þessum kringumstæðum. Ef ríkisstjórnin ætlar að halda áfram á þessari braut þá getur það ekki endað öðruvísi en að Ísland verði láglaunasvæði.“

Guðmundur lýsti á fundi með aðilum vinnumarkaðarins í vikunni yfir efasemdum um hugmyndir um samflot allra aðila á vinnumarkaði í kjaramálum. Hann sagði að eins og staðan væri í dag stefndi Rafiðnaðarsambandið að skammtímasamningi sem gilti fram á næsta haust. Aðeins eitthvað nýtt útspil frá ríkisstjórninni eða vinnuveitendum gæti breytt þeirri skoðun þannig að menn yrðu tilbúnir til að ræða samning til lengri tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka