Landskjörstjórn er undirbúin undir að varpa þurfi hlutkesti til að fá fram niðurstöðu kosninga um stjórnlagaþing. Talning stendur yfir og það mun skýrast eftir hádegið hvort raunhæft sé að gera ráð fyrir að útslit verði kynnt í dag.
Samkvæmt lögum um stjórnlagaþing er gert ráð fyrir þeim möguleika að atkvæðatala frambjóðenda sé jöfn. Þar sem röðun í sæti skiptir máli þegar atkvæði eru talin er ekki útilokað að það geti þurfti að varpa hlutkesti oftar en einu sinni.
Ástráður Haraldsson, formaður landskjörstjórnar, segir að ef þessi staða komi upp, að varpa þurfi hlutkesti, geti það tafið birtingu úrslita í einhvern stuttan tíma. Hann tekur fram að alls ekki sé víst að varpa þurfi hlutkesti, en það geti líka gerst að það þurfi að gera oftar en einu sinni.
Ástráður segir að talning atkvæð gangi vel og engir hnökrar hafi komið upp í sambandi við framkvæmd kosninganna. Öll atkvæði eru skönnuð inn í sérstakar talningavélar.
Unnið er að því að taka saman upplýsingar um kosningaþátttöku á landsvísu. Ástráður segist vonast eftir að hægt verði að gefa þær upplýsingar um eða eftir hádegið.
Ástráður var spurður hvort mikið væri um ógilda eða gallaða seðla. Hann segist vera kominn með gott yfirlit yfir það, en enn sem komið er bendi ekkert til þess að slíkir seðlar séu óeðlilega margir.
Samkvæmt lögunum eru seðlar þar sem er að finna rangar tölu frambjóðenda (tölu sem ekki er til) meðhöndlaðir þannig að ef rangar tölur eru á atkvæðaseðli eru atkvæði greidd frambjóðendum fyrir neðan þessa röngu tölu ógild en atkvæði fyrir ofan hana eru talin með. Sé fyrsta talan á seðlinum röng er allur seðillinn ógildur.