Ítrekar að Ísland eigi að loka WikiLeaks

Liz Cheney í viðræðuþætti á Fox.
Liz Cheney í viðræðuþætti á Fox.

Liz Cheney, dóttir Dicks Cheneys, fyrrum varaforseta Bandaríkjanna, ítrekaði í sjónvarpsfréttum í Bandaríkjunum í kvöld, að hún teldi að stjórnvöld á Íslandi eigi að loka vefsíðunni WikiLeaks. 

„Ég tel enn og aftur, að ríkisstjórn Íslands eigi að loka þessari vefsíðu. Ég tel að þau eigi ekki að leyfa þessu efni að birtast á vefsíðunni á Íslandi og ég tel að ríkisstjórnin eigi að einbeita sér að því að sækja þá, sem bera ábyrgð á þessu, til saka," sagði Cheney við Fox sjónvarpsstöðina.

Liz Cheney, sem er lögmaður og starfaði um tíma í bandaríska utanríkisráðuneytinu,  er vinsæll álitsgjafi í bandarískum fjölmiðlum. Ræddi Fox við hana  um afleiðingar þess að Wikileaks birti rúmlega 250 þúsund sendiráðspósta sem sendir voru til og frá bandaríska utanríkisráðuneytinu á síðustu árum.

Cheney sagði fyrst í ágúst við Fox, að hún teldi að Ísland ætti að loka vefsíðunni. Kristinn Hrafnsson, blaðamaður og einn af talsmönnum WikiLeaks, sagði þá við mbl.is, að vefurinn hefði netþjóna um allan heim sem spegluðu hver annan svo út frá tæknilegum forsendum væri ómögulegt fyrir yfirvöld á Íslandi að loka síðunni.

Skjölin sem WikiLeaks birti í kvöld

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka