Úrslit líklega kynnt annað kvöld

Talning í kosningunum fer fram í Laugardalshöll.
Talning í kosningunum fer fram í Laugardalshöll. mbl.is/Golli

Ástráður Haraldsson, formaður landskjörstjórnar, segist telja líklegt að úrslit kosninga á stjórnlagaþing verði tilkynnt annað kvöld. Talningamenn gera hlé á talningu um kl. 22 og halda síðan áfram talningu kl. 8:30 í fyrramálið.

Ástráður sagði að talning í þessum kosningum væri flóknari en í venjulegum þingkosningum. Menn hefðu ekki vitað fyrirfram hversu langan tíma tæki að telja, en hún hefði reynst tímafrekari en hann var að gera sér vonir um.

Ástráður sagði stefnt að því að kynna niðurstöðu kosninganna á blaðamannafundi annað kvöld. Hann sagðist segja þetta með þeim fyrirvara að ekkert komi upp á sem tefji talninguna.

Ekkert verður gefið upp um stöðu efstu manna fyrr en endanlegar niðurstöður kosninganna liggja fyrir.

522 frambjóðendur voru í kjöri. 36,77% kjósenda á kjörskrá tóku þátt í kosningunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert