Veikir ímynd og dregur úr trausti bandarískra stjórnvalda

Hvíta húsið í Washington.
Hvíta húsið í Washington. Reuters

„Þetta veikir verulega ímynd Bandaríkjanna og dregur úr trausti þeirra hjá ríkisstjórnum og öllum leikendum á alþjóðavettvangi. Og hjá almenningi í heiminum. Bandaríkjamönnum er mjög annt um ímynd sína,“ segir Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, varðandi þau gögn sem Wikileaks og fjölmiðlar hafa birt á netinu.

Nú verði bandarísk stjórnvöld að endurskoða öll vinnubrögð sem eigi sér stað í samskiptum sendiráða og Washington. Þau geti ekki sætt sig við að svona geti lekið út. Haldi þetta áfram muni það skaða verulega öll samskipti bandarískra embættismanna við erlend ríki.

Baldur segir í samtali við mbl.is að fulltrúar þeirra ríkja sem eigi í samskiptum við bandaríska embættismenn hljóti nú að gera ráð fyrir því að samskipti geti verið gerð opinber. „Þegar samskiptin eru orðin þess eðlis þá hljóta þau að verða allt öðruvísi. Menn geta ekki treyst í því í dag að þeir geti átt trúnaðarsamskipti við erindreka Bandaríkjamanna á erlendum vettvangi,“ segir Baldur.

„Þetta er gríðarlegt áfall fyrir bandarísk stjórnvöld að einhverjir utanaðkomandi hafi komist yfir þessi gögn og þessi skjöl.“

Kemur ekkert sérstaklega á óvart

Baldur bendir á að þau gögn sem hafi verið birt og fjallað um í fjölmiðlum komi ekkert sérstaklega á óvart. Það hafi t.d. lengi verið vitað að bandarísk stjórnvöld hafi njósnað um og hlerað samtöl leiðtoga Sameinuðu þjóðanna. Það hafi verið stórmál þegar það hafi komið í ljós að samtöl Hans Blix, sem fór fyrir vopnaeftirliti SÞ í aðdraganda innrásarinnar í Írak, hafi verið hleruð.

„Einnig hefur það lengi verið vitað að sendiráð skrifa ítarlegar skýrslur um stjórnmálaástandið í hverju einasta ríki heims. Og leggja mat á stjórnmálaleiðtoga ríkja.“ 

Hann tekur hins vegar fram að þarna sé verið að fjalla um mörg viðkvæm mál. „Eins og, ef rétt reynist, að leiðtogar Sádi-Arabíu eru að óska eftir árás á Íran til að stöðva áætlun þeirra í kjarnorkumálum. Og þegar það kemur í ljós með beinum hætti að leiðtogar ýmissa arabaríkja eru að styðja dráp Bandaríkjamanna á tilteknum aðilum al-Qaeda,“ segir Baldur.

Hann bætir við að þetta hafi verið vitað, en þetta sé hins vegar öðruvísi þegar menn sjá þetta svart á hvítu á blaði. „Í augnablikinu er ekkert stórlega nýtt í þessu, af því að menn hafa vitað þetta. En það er öðruvísi þegar það kemur úr prentara svart á hvítu,“ segir hann.

Bandaríkin þurfa að fara í ímyndarherferð

Baldur segir að bandarísk stjórnvöld þurfi að fara í ítarlega ímyndarherferð í kjölfar birtingu skjalanna. Þá þurfi það einnig að bæta samskipti sín við erlenda þjóðarleiðtoga. Þetta geti haft áhrif á það hversu opinskáir stjórnmálamenn, eða fólk utan Bandaríkjanna, sé við bandaríska embættismenn.

„Þetta mun klárlega, í því sambandi, hafa einhver tímabundin áhrif. Það er hins vegar erfitt að meta langtímaáhrif þessa fyrr en maður er búinn að sjá þetta í heild sinni. Hvað þetta er mikið,“ segir Baldur.

Hvað varðar samskipti Íslands við Bandaríkin segir Baldur að menn hljóti að líta málið mjög alvarlegum augum. „Við getum rétt ímyndað okkur það þegar við áttum í þorskastríðunum við Breta, ef allt sem fór fram á milli íslenskra og bandarískra embættismanna hefði orðið opinbert nokkrum vikum síðar. Það hefði getað skaðað okkur verulega í landhelgismálinu.“
Baldur Þórhalsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.
Baldur Þórhalsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. mbl.is/Sverrir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert