Ekki verður greint frá kröfugerð Starfsgreinasambandsins, sem gengið var frá í dag vegna komandi kjaraviðræðna, fyrr en kröfurnar hafa verið kynntar Samtökum atvinnulífsins. Skv. heimildum mbl.is ætlar SGS að krefjast umtalsverðrar hækkunar lágmarkslauna. Lægsti taxti í dag er rúmar 157 þús. kr en krafist verður að lægstu laun hækki talsvert umfram 200 þúsund kr.
Flestir kjarasamningar á vinnumarkaði renna út á morgun.
Starfsgreinasambandið hefur umboð til að ganga til samninga við viðsemjendur á almenna vinnumarkaðinum frá öllum aðildarfélögum sambandsins að Flóafélögunum á höfuðborgarsvæðinu frátöldum, sem semja sér.
Framundan eru flóknar kjaraviðræður því auk endurnýjunar kjarasamninga á almenna vinnumarkaðinum þarf að ganga til samninga við ríkið og sveitarfélög vegna þúsunda starfsmanna.