Um 40 forystumenn lífeyrissjóða settust að fundi kl 15 í dag til að fara yfir stöðuna í viðræðunum við stjórnvöld um aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna. Um er að ræða hugmyndir um aðgerðir í tíu liðum.
„Við erum að fara yfir stöðu viðræðnanna við ríkið. Fundað var um helgina og að einhverju leyti bæði í dag og á morgun og þá fer væntanlega að koma í ljós hvort menn geta lent einhverju,“ sagði Arnar Sigurmundsson, formaður Landssamtaka lífeyrissjóða, fyrir fundinn í dag.
Fundinn sitja stjórnarformenn, stjórnarmenn og framkvæmdastjórar lífeyrissjóða. Reiknað er með að á fundinum verði ákveðið hvort fulltrúar lífeyrissjóðanna fá umboð til að halda viðræðunum áfram á grundvelli þeirra hugmynda sem nú liggja fyrir.
Fyrr í dag voru fulltrúar stjórnarandstöðunnar boðaðir á fund með fimm ráðherrum þar sem farið var yfir stöðuna í viðræðunum. Er jafnvel búist við að niðurstaða gæti legið fyrir á morgun um mögulegar aðgerðir.