Ljóst þykir, að nemendur sem voru á leið frá Skagafirði og Húnavatnssýslum til Akureyrar með rútu nýlega voru ekki að verki þegar sturtað úr flögupokum í sæti bílsins og einhver gerði þarfir sínar á gólf bílsins.
Vefurinn feykir.is sagði nýlega frá þessu og þá kom fram, að ungmenni hefðu setið aftast í rútunni og farið út við Menntaskólann á Akureyri. Nú segir feykir.is, að athugun hafi leitt í ljós að nemendur framhaldsskóla á Akureyri, sem komu í rútuna á Blönduósi og í Varmahlíð sátu ekki aftast þar sem atvikið átti að hafa gerst. Líklega hafi þar verið um veikan einstakling að ræða.
Óskar Stefánsson framkvæmdastjóri Bíla og fólks, segir við vefinn, að málið sé afskaplega viðkvæmt þar sem hugsanlegt sé að hér sé um barn að ræða eða vanheilan einstakling.
„Málið var ekki og verður ekki kært og við erum að reyna að komast til botns í þessu. Nemendur eiga engan þátt í þessu og hafa verið afskaplega jákvæð við að upplýsa málið með okkur. Við höfum sent þeim bréf í skólana varðandi þetta mál," segir Óskar við Feyki.