Þátttaka í stjórnlagaþingskosningunum var 36% sem er slakasta þátttaka í almennum kosningum á Íslandi frá lýðveldisstofnun. Til samanburðar var þátttaka í þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave fyrr á þessu ári um 62%.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að dræm kjörsókn á laugardaginn hljóti að vera áfall fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur því hún hafi lengi verið talsmaður stjórnlagaþings. Augljóst sé að forsætisráðherrann stígi ekki í takt við þjóðina hvað varðar áhuga á stjórnlagaþinginu. Bjarni telur þó breytinga þörf á stjórnarskrá Íslands en deilir á aðferðirnar. Hann vonast þó til að sátt náist um niðurstöðu stjórnlagaþingsins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, tekur í svipaðan streng og segir ákveðin skilaboð felast í svo lélegri þátttöku. Kominn sé tími til að ríkisstjórnin taki af skarið í stað þess að láta aðra sjá um málin fyrir sig, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.