Töluvert hefur verið um slys á gangandi vegfarendum á höfuðborgarsvæðinu í dag sem rekja má til hálku og erfiðra aðstæðna vegna ísingar. Mikið álag hefur verið á sjúkraflutningamenn og slysadeild í dag af þeim sökum.
Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði hafa sjúkraflutningamenn farið í hátt á annan tug útkalla í dag vegna slysa tengdum hálku. Hálkan virðist mjög lúmsk þannig að fólk átti sig ekki á henni þegar það fer út og eitthvað hafi verið um beinbrot hjá fólki sem hefur dottið. Mikið álag hafi því verið á sjúkraflutningamönnum og slysadeild.
Umferðarstofa vill vara fólk við hálku, sérstaklega á gangstígum og bílastæðum, og þess skal gætt að fólk sé vel búið til fótanna.