Til tíðinda dregur í viðræðum stjórnvalda, fjármálafyrirtækja og lífeyrissjóða um aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna á næstu dögum, að mati Arnars Sigmundssonar, framkvæmdastjóra Landssamtaka lífeyrissjóða.
Að sögn Arnars hafa lífeyrissjóðirnir ekki breytt um afstöðu gagnvart flatri lækkun fasteignalána og að fulltrúar þeirra í viðræðunum leggi fyrst og fremst áherslu á að samkomulag um sértækar aðgerðir handa skuldsettustu heimilunum náist. Í ljósi þess styðji þeir til að mynda hækkun vaxtabóta.
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins deila fulltrúar fjármálafyrirtækjanna þessu sjónarmiði með lífeyrissjóðunum og þeir sem blaðið ræddi við úr þeim ranni telja afar ólíklegt að niðurstaða viðræðnanna verði einhverskonar flöt lækkun á fasteignalánum.