Umboðsmanni gert að spara en kvörtunum fjölgar

Verði niðurskurður í fjárlagafrumvarpi til Umboðsmanns Alþingis að veruleika verður ekki hægt að ráða starfsmenn, afgreiðslutími mála lengist í einhverjum tilvikum og embættið getur ekki tekið upp mál að eigin frumkvæði nema í undantekningartilvikum. Kvörtunum hefur fjölgð um 15% á þessu ári. Þetta kemur fram í bréfi umboðsmanns til Alþingis.

Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, kom á opinn fund allsherjarnefndar Alþingis í morgun og fór yfir stöðu mála hjá embættinu. Í bréfi sem hann sendi Alþingi í seinustu viku er lýst afleiðingum niðurskurðartillagna í fjárlagafrumvarpinu. Að raungildi eigi fjárveitingin að lækka um 10,3 milljónir. Gangi það eftir hafa árlegar fjárveitingar til embættisins ekki verið lægri frá árinu 2006.

Enn minna svigrúm en áður 

Í bréfinu lýsir Tryggvi aðhaldsaðgerðums em gripið hefur verið til á umliðnum misserum. Enn minna svigrúm sé en áður til að mæta auknu vinnuálagi með lengri vinnutíma hjá umboðsmanni og starfsfólki hans.

„Miðað við að fjárveiting til embættisins verði alls kr. 105,3 m.kr., eins og lagt er til í fjárlagafrumvarpinu, fæ ég ekki séð að unnt verði að ráða fleiri starfsmenn í stað þeirra sem hafa hætt á árinu 2010. Jafnframt liggur fyrir að draga verður saman í kaupum á aðkeyptri aðstoð en hluti af vinnu við afgreiðslu mála, einkum aðstoð við endanlega úrvinnslu og yfirferð mála, hefur allan þann tíma, sem embætti umboðsmanns hefur starfað, verið leyst með kaupum á slíkri þjónustu,“ segir í bréfi umboðsmanns.

Fram kemur að sú aðstaða að umboðsmaður nýtur ekki lengur slíkrar aðstoðar við afgreiðslu mála hafi þegar leitt til þess að dráttur verður á frágangi og afgreiðslu viðameiri mála sem berast embættinu.

Það sem af er þessu ári hafa umboðsmanni borist um 15% fleiri formlegar kvarnanir en á sama tíma í fyrra.

Auka mannafla dómstólanna 

Vekur Tryggvi sérstaka athygli á því í bréfinu að uppi séu ráðagerðir um að auka við mannafla dómstólanna með tilheyrandi útgjöldum til að takast á við afleiðingar af áföllum í fjármálakerfinu. Í flestum tilfellum sé þar um að ræða viðfangsefni sem lúta að starfsemi fjármálafyrirtækja og viðskiptum þeirra. Afleiðingar þessara áfalla hafi einnig komið fram í auknum mæli í málum hjá umboðsmanni Alþingis og þar sé í mörgum tilvikum um málefni einstaklinga að ræða sem eru að takast á við þessar afleiðingar í formi atvinnumissis og skerðingar á þjónustu.

„Það verður að vera ákvörðun Alþingis í hvaða mæli það telur rétt að veita fjármunum til starfs umboðsmanns Alþingis til að leysa m.a. úr slíkum kvörtunum frá borgurunum,“ segir í bréfinu.  

Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis
Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert