Hlín Einarsdóttir, ritstjóri vefmiðilsins Bleikt.is, mætti í útvarpsþáttinn „Í Bítið á Bylgjunni“ í morgun þar sem hún ætlaði að spjalla um vefsíðu sína sem fer í loftið á næstu dögum. Það vildi þó ekki betur til en svo að Hlín fór úr axlarlið rétt fyrir viðtalið og varð frá að hverfa.
„Ég tók líka eftir þessu á meðan ég var að tala að hún var að teygja sig og ég hélt kannski hreinlega að það hafi hlaupið eitthvað aðeins í öxlina eins og gerist stundum þegar maður teygir sig of mikið. En nei, þá fór vinan bara úr axlalið,“ sagði Heimir Karlsson þáttastjórnandi í þættinum í morgun. Hringt var í neyðarlínuna og kom sjúkrabíll að höfuðstöðvum Bylgjunnar á innan við 3 mínútum. Þáttastjórnendur óskuðu Hlín alls hins besta og vonast til að fá hana í viðtal síðar.
Galopið gap myndaðist í þættinum líkt og þáttastjórnendurnir orðuðu það svo skemmtilega og opnuðu þeir fyrir símann og báðu hlustendur um að hjálpa sér við að fylla upp í þáttinn.