Stærstur hluti kjarasamninga á vinnumarkaði eru lausir frá og með deginum í dag. Áætlað er að hátt í 150 þúsund launþegar á almennum markaði og hjá ríki og sveitarfélögum verði án kjarasamninga eftir mánaðamótin.
Gildistími kjarasamninga aðildarfélaga ASÍ rennur út í dag að samningum sjómanna frátöldum sem renna út um áramótin. Sömu sögu er að segja af samningum aðildarfélaga BSRB sem verða með lausa samninga frá deginum í dag. Félög háskólamenntaðra í BHM og kennara hafa verið án samninga í hálft annað ár.
Nokkrir kjarasamningar hjá Hafrannsóknarstofnun og Landhelgisgæslunni gilda til 31. janúar á næsta ári. Samningar Félags íslenskra atvinnuflugmanna hjá Icelandair og Flugfreyjufélagsins hjá Iceland Express gilda út janúar á næsta ári.
Kjaraviðræður eru ekki byrjaðar vegna allra þeirra samninga sem losna nú um mánaðamótin en boðað hefur verið til fyrsta samningafundar á milli Starfsgreinasambandsins og Samtaka atvinnulífsins 6. desember.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir að aðildarsamtökin séu að leggja lokahönd á kröfugerð og vilji fara að hefja viðræður við viðsemjendur. „Ég tel líklegt að viðræður einstakra sambanda fari í gang í næstu viku,“ segir hann.