Á árinu 2009 voru gjaldeyristekjur af erlendum ferðamönnum 155 milljarðar króna að teknu tilliti til umsvifa íslenskra ferða- og flugþjónustufyrirtækja vegna starfsemi utan Íslands.
Þar af var ferðaneysla erlendra ferðamanna hér á landi 112 milljarðar króna en 43 milljarðar króna eru tekjur vegna ferðamanna utan Íslands, að því er kemur fram í nýjum Hagtíðindum Hagstofunnar. Á árinu 2009 komu 494 þúsund ferðamenn til landsins og um 69 þúsund dagsferðamenn með skemmtiferðaskipum.
Á árinu 2009 hækkuðu meðalútgjöld á ferðamann úr ríflega 186 þúsund krónum í 227 þúsund krónur. Meðalgengi krónunnar veiktist um rúmlega 34% milli 2008 og 2009 sem að öðru jöfnu hefur styrkt samkeppnisstöðu landsins sem ferðamannalands á árinu 2009, að sögn Hagstofunnar.
Ferðamenn frá hinum Norðurlöndunum eru fjölmennastir erlendra gesta. Alls komu 123 þúsund ferðamenn frá hinum Norðurlöndunum á árinu 2009. Af einstökum markaðssvæðum hefur þýski markaðurinn verið mikilvægastur mældur í fjölda gistinátta en á árinu 2008 voru gistinætur Þjóðverja 383 þúsund alls. Mesta fjölgun í gistinóttum var meðal Þjóðverja á árinu 2009 en þeim fjölgaði um rúmlega 14%.
Breskir ferðamenn hafa verið fjölmennastir gesta frá árinu 2002 en þeim fækkaði mikið á árinu 2009, úr tæplega 70.500 í tæplega 61.800.
Hlutur ferðaþjónustu í vergri landsframleiðslu var 4,6% á árinu 2008. Heildarumsvif fyrirtækja í ferðaþjónustu á árinu 2008 námu ríflega 209 milljörðum króna eða sem svarar um 14% af vergri landsframleiðslu, og hefur þá verið áætlað fyrir umsvifum íslenskra ferða- og flugþjónustufyrirtækja vegna starfsemi utan Íslands.
Heildarferðaneysla innanlands á árinu 2008 var rúmlega 171 milljarður króna eða sem svarar rúmlega 11,5% af vergri landsframleiðslu. Ferðaneysla innanlands skiptist þannig að kaup erlendra ferðamanna voru 93,5 milljarðar, ferðaneysla heimilanna um 67,5 milljarðar og kaup fyrirtækja og opinberra aðila 9,5 milljarðar króna.
Áætlað er, að á árinu 2008 hafi ríflega 9200 manns starfað við ferðaþjónustu eða um 5,1% af störfum alls. Um 55% af umsvifum innlendrar ferðaþjónustu á árinu 2008 má rekja til erlendra
ferðamanna. Á árinu 2003 var þetta hlutfall 53% þannig að vægi þeirra í innanlandsferðaþjónustu hefur aukist lítið eitt.