Allir skattar og gjöld hækka

Jón Gnarr og Hanna Birna Kristjánsdóttir.
Jón Gnarr og Hanna Birna Kristjánsdóttir.

„Allir skattar sem hægt er að hækka eru hækkaðir. Öll gjöld sem hægt er að hækka eru hækkuð,“ sagði Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti sjálfstæðismanna, um fjárhagsáætlun meirihlutans á fundi borgarstjórnar í dag.  

Hún sagði nýja meirihlutann sem hafi sagst ætla að gera lífið í borginni skemmtilegra boða fáar nýjar leiðir fyrir borgarbúa og muni ekki gleðja neinn með þessum aðgerðum sem boðaðar eru í fjárhagsáætluninni.

Þannig muni það ekki gleðja hjón með tvö börn á leikskólaaldri sem þurfi á næsta ári að greiða frá 100 þúsund kr. upp í 150 þúsund í hærri skatta og gjöld til sveitarfélagsins á komandi ári. Nú eigi líka að hækka fasteignaprósentuna.

Hanna Birna spurði einnig hvort menn héldu að elldri borgarar muni þakka fyrir það sem gleðiauka að hækka á þrif í heimaþjónustu um 88%.

Þá gagnrýndi hún harðlega að á sama tíma og hækka á skatta sé ekki meira hagrætt en raun beri vitni um í fjárhagsáætluninni. „Á meðan allir skattar eru hækkaðir er engin launahagræðing gerð hjá þeim sem hæst hafa launin hjá Reykjavíkurborg,“ sagði Hanna Birna.

„Þessi fjárhagsáætlun er fyrir kerfið en ekki fólkið,“ sagði hún.

Fasteignaskattar hækka 

Í frétt frá borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna í dag er bent á að auk þess sem útsvarsprósentan á að hækka í 13,20%, eigi fasteignaskattar að hækka úr 0,214% í 0,240% og lóðarleiga úr 0,08% í 0,2%

Lausafjárstaða í sögulegu hámarki 

Bent er á að tölurnar tali sínu máli um góðan árangur fyrrverandi meirihluta síðastliðin tvö ár, „borgarsjóður stendur betur en nokkru sinni fyrr og skilaði afgangi síðastliðin tvö ár og rekstur samstæðunnar mun skila um 20 milljörðum í hagnað 2010. Lausafjárstaða er í sögulegu hámarki eða 17,1 milljarður sem er 145.000 kr. á hvern íbúa í Reykjavík á meðan hún er 75.000 kr. á íbúa í Garðabæ og 49.000 kr. í Kópavogi. Reykvíkingar hljóta að spyrja hvers vegna skattar á þá hækki á sama tíma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert