Andri Árnason hæstaréttarlögmaður var í dag skipaður verjandi Geirs H. Haarde fyrir landsdómi að beiðni Geirs. Fyrir rúmri viku gagnrýndi Geir vinnubrögð landsdóms harðlega í bréfi til forseta hans, m.a. fyrir töf á því að honum væri skipaður verjandi.
Þann 15. nóvember krafðist Geir þess í bréfi til forseta landsdóms að sér yrði skipaður verjandi án frekari tafa. Í því sambandi vísaði Geir í 15. grein laga um landsdóm.
Í yfirlýsingu fyrir rúmri viku sagði hann að í stað þess að forseti landsdóms svaraði sér beint hafi honum borist afrit af bréfi til saksóknara Alþingis. Þar hafi verið óskað umsagnar um kröfu Geirs um skipun verjanda. Beðið væri um að afstaða saksóknara bærist landsdómi, en ekki forseta landsdóms.
„Ég tel þetta með öllu óskiljanlegt og fyrir þessu er hvergi að finna lagastoð. Saksóknara er ekki ætlað að veita umsögn um skipun verjanda og hefur ekkert með það mál að gera. Ég mun því mótmæla því harðlega við forseta landsdóms að afgreiðsla þessa einfalda atriðis sé enn tafin með þessum hætti,“ sagði Geir í yfirlýsingunni.