Enginn minnst á Parísarklúbbinn

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði á Alþingi í dag, að enginn hefði minnst á yfirvofandi greiðslufall ríkisins og Parísarklúbbinn svonefnda í heilt ár.

„Enda er Ísland komið vel á veg að vinna sig út úr sínum erfiðleikum og komið í meira skjól en mörg önnur ríki, sem eru að fást við erfiðleika," sagði Steingrímur.

Steingrímur sagði, að staðan væri eftir sem áður erfið og Íslendingar væru enn að vinna sig út úr gríðarlegu áfalli, sem varð fyrir tveimur árum.

Steingrímur sagði, að allt teiknaði til þess, að viðsnúningur hefði orðið í hagkerfinu, stöðugleika hefði verið náð og það verði hagvöxtur á næstu misserum, aðeins væri spurning hve hann yrði kraftmikill.  „Það eru mikil tímamót þegar hagkerfið er farið að vaxa á nýjan leik," sagði Steingrímur.

Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, benti á, að stjórnarliðar hefðu haldið því fram sjálfir fyrir ári, þegar reynt var að fá þingmenn til að samþykkja Icesave-samkomulagið, að yrðu þeir samningar ekki samþykktir myndi allt stefna í greiðslufall íslenska ríkisins. 

„Það er ríkisstjórnin sjálf sem ber ábyrgð á þessari umræðu og ekki síst þeir þingmenn Samfylkingarinnar, sem sífellt standa hér og tala niður íslensku krónuna með því að vísa til þess að eina leiðin út úr þessum vanda okkar sé að fara inn í Evrópusambandið. Sem er rangt," sagði Unnur Brá.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert