Gamaldags „skotgrafapólitísklágkúra“ á Alþingi?

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra. Eggert Jóhannesson

Umhverfisráðherra sagðist á Alþingi í kvöld harma það, að gamaldags „skotgrafapólitísklágkúra“ hafi ráðið ríkjum þegar dagskrá þingsins var breytt á þann veg að þrjú mál voru tekin af dagskrá. Fleiri stjórnarliðar komu upp í ræðustól og sögðu þetta ill tíðindi enda lægi mikið við.

Málin þrjú eru bandormurinn svonefndi, þar sem lagt er til að gerðar verði ýmsar breytingar á lögum um skatta og gjöld, en einnig tvö frumvörp umhverfisráðherra, um brunavarnir og mannvirki.

Frumvörp umhverfisráðherra eiga bæði að taka gildi 1. janúar nk. og voru formaður og varaformaður umhverfisnefndar Alþingis ósátt við þá niðurstöðu að breyta dagskránni, enda frumvörpin á leið til nefndarinnar og átti að vinna frekar með þau.

Mörður Árnason, formaður umhverfisnefndar, spurði hvort rétt væri að Sjálfstæðisflokkurinn hefði staðið svo að málum og lagst gegn því að málin yrðu rædd. Álfheiður Ingadóttir, varaformaður nefndarinnar, sagðist í kjölfarið ekki skilja þessa afstöðu og niðurstaðan ill tíðindi. Hún benti á að lögin eigi að taka gildi um áramót og því liggi mikið við. Þá hafi nefndin lagt á sig mikla vinnu við málin.

Ólafur Þór Gunnarsson, þingmaður VG og nefndarmaður í umhverfisnefnd, benti á að fullkomin samstaða hefði verið um málin og honum væri því fyrirmunað að skilja hvernig blandað væri saman óskyldum málum og atriðum á þingfundi með þessum hætti. „Hér geta menn haft skoðanir á því að fjármálaráðherra sé ekki viðstaddur en umhverfisráðherra og flestir í nefndinni hafa beðið eftir því að frumvörpin komi á dagskrá.“

Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, sagði vald sitt kannski mikið en hún stöðvi ekki dagskrána ein. Gert hefði verið samkomulag um hvaða mál væru í forgangi og hver ekki. Umrædd mál hefðu ekki verið meðal forgangsmála og því hafi ákvörðun verið tekin um að taka þau af dagskrá. Hún bætti við að það væri ekki þinginu samboðið að tala um „skotgrafapólítískalágkúru“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert