Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, gagnrýndi á borgarstjórnarfundi í dag að meirihlutinn í borgarstjórn hafi ákveðið að fullnýta ekki útsvarið en hækka þess í stað gjaldskrár.
Meirihlutinn í borgarstjórn hefur ákveðið að hækka útsvarið úr 13,03% í 13,20%. Hámarksútvar er 13,28%.
Sagði Sóley, að ákveðið hefði verið að skilja eftir 0,08% ónýtt í útsvari sem annars myndi skila tæpum 230 milljónum í borgarstjoð. Í frumvarpi til fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár sé hins vegar gert ráð fyrir gífurlegum gjaldskrárhækkunum, þar á meðal hækki gjaldskrár fyrir þjónustu við börn um 5-35%.
„Þessi staðreynd, að hér stendur til að skilja eftir 0,08% ónýtt útsvar en auka jaðarskatta svo um munar, gerir það að verkum að við Vinstri græn teljum grunnhugmyndafræðina óásættanlega. Við gerum okkur grein fyrir að borgarsjóður stendur ekki og fellur með þessum 230 milljónum en hægt væri að komast hjá stórum hluta flatra gjaldskrárhækkana ef þær væru innheimtar," sagði Sóley.
Hún bætti við, að borgarbúar eigi heimtingu á vandaðri fjárhagsáætlun, þar sem staðinn sé vörður um þá hópa sem verst standa á tímum sem þessum. „Besti flokkurinn og Samfylkingin hafa ekki kjark til að leggja hana fram."