Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Vinstri grænna, var endurkjörinn formaður Heimssýnar, hreyfingu sjálfstæðissinna í Evrópumálum, á aðalfundi um síðustu helgi. Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var kjörin varaformaður í stað Heiðrúnar Lindar Marteinsdóttur lögfræðings.
Á vef Heimssýnar kemur fram að Ásmundur Einar hafi sagt í setningarræðu sinni á aðalfundinum, að vegna baráttu Heimssýnar væri umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu í uppnámi og stuðningur við umsóknina færi þverrandi.
„Annar ríkisstjórnarflokkurinn er í miklum vandræðum vegna málsins og enginn stjórnarandstöðuflokkanna vill koma nálægt þessu eitraða peði," er haft eftir Ásmundi Einari. Hann bætti við, að ekki væri spurning hvort heldur hvenær umsóknin sigldi í strand.