Þingmenn og formenn Framsóknarflokks og Hreyfingarinnar, og tveir þingmenn Vinstri grænna, hafa lagt fyrir Alþingi þingsályktunartillögu um að fela efnahags- og viðskiptaráðherra að láta vinna efnahagsáætlun sem tryggir velferð og stöðugleika án aðstoðar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Í frumvarpinu segir að efnahagsáætluninni verði skilgreindar nauðsynlegar aðgerðir til að gera íslenskt hagkerfi óháð aðstoð sjóðsins og forðast frekari skuldsetningu ríkissjóðs, aðgerðaáætlun útbúin og henni fylgt eftir. „Leitað verði liðsinnis færustu erlendra sérfræðinga á sviði hagvísinda við mótun og framkvæmd áætlunarinnar til að tryggja efnahagsstjórn landsins nauðsynlegan trúverðugleika.“
Í greinargerð með tillögunni segir að þar sem AGS hefur komið að málum hafi stjórnvöld verið neydd til að beita kreppudýpkandi aðgerðum. Ljóst sé að hið sama gildi um Ísland. „Nýleg könnun sem gerð var af miðstöð fyrir rannsóknir á efnahags- og stjórnmálum í Washington leiddi í ljós að af 41 landi sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur haft afskipti af undanfarin ár hefur 31 verið þvingað til að beita kreppudýpkandi hagstjórnaraðgerðum: háu vaxtastigi, niðurskurði velferðarkerfisins og aðhaldssemi er varðar aukið peningamagn.“
Þá er bent á að hagstjórnartækin sem Íslandi er gert að beita séu hátt vaxtastig, mikil skuldsetning vegna gjaldeyrisvarasjóðsins og of hraður niðurskurður.
Verði tillagan samþykkt á efnahagsáætlunin að liggja fyrir 1. mars 2011 og koma þá þegar til framkvæmda.