Ætla að hætta að greiða Heimahjúkrun barna

Sjúkratryggingar Íslands hafa tilkynnt Heimahjúkrun barna með bréfi að stofnunin ætli að hætta að greiða fyrir þjónustu Heimahjúkrunar barna vegna sparnaðarkrafna. Heimahjúkrunin sinnir að jafnaði 60- til 80 langveikum- og fötluðum börnum, sem dvelja heima. Bára Sigurjónsdóttir, sem rekur Heimahjúkrun barna, segir þetta mjög slæmt.

Að sögn Báru hefur Heimahjúkrun barna borist bréf frá Sjúkratryggingum um að stofnunin leggi til við heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið að hætt verði að greiða fyrir þessa þjónustu. „Við munum banka upp á hjá ráðuneytinu og reyna að stöðva þetta,“ segir Bára.

Sérhæfðir barnahjúkrunarfræðingar hjá Heimahjúkruninni sinna meðal annars fötluðum börnum og  börnum  með ýmsa sjúkdóma, til dæmis flogaveiki, hjartasjúkdóma, krabbamein og fleira.

Að sögn Báru eru börnin sem fá heimahjúkrun í dag um 100 talsins en að jafnaði sinna hjúkrunarfræðingarnir 60 til 80 á höfuðborgarsvæðinu.

Hún segir að ef Heimahjúkrun barna verði lögð niður liggi ekkert fyrir um hvað eigi að koma í staðinn. „Þetta er sérhæfð hjúkrunarþjónusta fyrir langveik börn. Öll veikustu börn á á stórreykjavíkursvæðinu eru þarna.“  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka