Funda stíft um aðgerðir

Ráðherrar hafa átt fundi með fulltrúum ASÍ og SA í …
Ráðherrar hafa átt fundi með fulltrúum ASÍ og SA í dag. mbl.is/Ómar

Mikil fundarhöld eru í Stjórnarráðinu um aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna. Fulltrúar ASÍ og SA voru kallaðir til fundar með ráðherrum fyrir hádegi og kl 12 hófst fundur ráðherra með forsvarsmönnum lífeyrissjóða.

Enn er alls óvíst hvort tekst að ganga frá samkomulagi í dag eða á morgun skv. upplýsingum mbl.is en menn eru þó sagðir vera að nálgast niðurstöðu.

Meðal þess sem verið er að skoða, vegna lausna á fjárhagsvanda heimilanna, er að auka vaxtabætur um sex milljarða króna. Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði við Morgunblaðið, að þetta sé einfaldasta og skilvirkasta aðferðin til að gera þetta í gegnum vaxtabótakerfið; að lækka þannig vaxtakostnað hjá öllum þorra fólks.

Þá hefur ríkisstjórnin lagt fast að lífeyrissjóðunum að sætta sig við að veðsetningarhlutfall á fasteignum yrði lækkað niður í 100-110%. Viðbrögð lífeyrissjóðanna við þessari tillögu hafa verið alfarið neikvæð. Sjóðirnir hafa ekki verið tilbúnir til að fallast á þessa tillögu og telja sig raunar ekki hafa heimild umbjóðenda sinna til slíks enda myndi það rýra mjög eignir sjóðanna.

Einnig hefur ríkisstjórnin kynnt fyrir samráðshópnum og stjórnarandstöðunni áform um að skattleggja bankana aukreitis til að fjármagna hærri vaxtabætur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert