Margir miðað við fyrsta dag mánaðar

Biðröð var í dag fyrir utan Fjölskylduhjálp Íslands líkt og …
Biðröð var í dag fyrir utan Fjölskylduhjálp Íslands líkt og aðra miðvikudaga. Sverrir Vilhelmsson

Úthlutunardagur var hjá Mæðrastyrksnefnd og Fjölskylduhjálp Íslands í dag. Þrátt fyrir að í dag sé 1. desember var töluverður fjöldi sem þáði matargjöf, alls um 1.050 einstaklingar. Allt fór þó vel fram, að sögn forsvarsmanna samtakanna.

Að sögn Ragnhildar Guðmundsdóttur, stjórnarformanns Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur, leituðu 500 einstaklingar eftir mataraðstoð í dag. Það er öllu minna en í síðustu úthlutun en þá komu 738 einstaklingar. Ragnhildur segir þó að þá hafi óvenju margir leitað aðstoðar og eins verður að líta til þess að fjöldinn í dag sé mikill miðað við dagsetningu.

Til Fjölskylduhjálpar Íslands leituðu 550 einstaklingar, að sögn Ásgerðar Jónu Flosadóttur, framkvæmdastjóra Fjölskylduhjálparinnar, voru um sex hundruð sem komu til síðustu úthlutunar og aldrei hafi fleiri komið en um 650 einstaklingar. Af því megi sjá hversu nauðin sé mikil.

Ásgerður vill einnig taka fram að jólaúthlutanir fari fram 14. og 15. desember og svo aftur 21. og 22. desember. Hún hvetur fólk til að hringja og skrá sig en skráð er á umrædda daga. Símanúmerið er 551-3360.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert