Mikil vonbrigði með samstarfið

Jón Gnarr og Hanna Birna Kristjánsdóttir.
Jón Gnarr og Hanna Birna Kristjánsdóttir. mbl.is/Kristinn

Hanna Birna Kristjánsdóttir, formaður borgarráðs og oddviti Sjálfstæðisflokks í borgarstjórn Reykjavíkur, sagði í Kastljósi Sjónvarpsins í kvöld, að hún  hefði orðið fyrir miklum vonbrigðum með samstarfið við meirihluta Besta flokksins og Samfylkingarinnar í borgarstjórninni.

Þau Hanna Birna og Jón Gnarr, borgarstjóri, ræddu um fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar, sem lögð var fram í gær. Jón sagði, að meirihlutinn hefði teygt sig langt í samstarfinu við minnihlutaflokkana.

Hanna Birna gagnrýndi fjárhagsáætlunina harðlega eins og hún gerði á fundi borgarstjórnar í gær.  „Þetta samstarf við meirihlutann í Reykjavík hefur valdið mér mjög miklum vonbrigðum. Mér finnst við komin mörg ár aftur til baka í ákveðna pólitík í Reykjavík," sagði Hanna Birna.

Hún sagði að minnihlutinn hefði unnið að ákveðnum verkefnum með meirihlutanum en hvorki Besti flokkurinn né Samfylkingin hefðu verið reiðubúin til að taka við því.

„Menn segja á tyllidögum: Við viljum þiggja góð ráð og hlusta á skoðanir annarra en þannig hefur það ekki verið," sagði Hanna Birna. Sagðist hún hvergi sjá þá nýju pólitík sem Jón Gnarr hefði talað um fyrir borgarstjórnarkosningarnar í maí.

Jón Gnarr sagði að ekki væri hægt að skrifa deilur í borgarstjórninni á  Besta flokkinn heldur frekar menningu menningu stjórnmálanna á Íslandi, en þar tíðkuðust að mörgu leyti mjög vanþroskuð vinnubrögð.

„Framboð Besta flokksins er að mínu mati einstakt kraftaverk vegna þess að yfirleitt þegar koma fram óánægjuframboð eru það oftast hatursframboð og reiðiframboð, gjörólíkt Besta flokknum," sagði Jón.

Hann sagði að meirihlutinn hefði teygt sig mjög langt í átt að minnihlutanum og samstarf og samvinna hefðu verið frábær á mjög mörgum sviðum. „Meira en við höfðum gert okkur vonir um, meira að segja."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert