Slitastjórn Landsbankans hefur ákveðið að höfða skaðabótamál á hendur fyrrum bankastjórum Landsbankans og fleiri yfirmönnum bankans. Fram kom í fréttum Bylgjunnar, að ákveðið hefði verið að krefja þá Halldór J. Kristjánsson og Sigurjón Þ. Árnason fyrrum bankastjóra, um 37 milljarða króna hvorn í bætur vegna vanrækslu í starfi.
Að sögn Bylgjunnar staðfesti Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður Sigurjóns, að þessi krafa hefði komið fram. Um er að ræða annars vegar kröfu upp á 18 milljarða og hins vegar upp á 19 milljarða. Haft var eftir Sigurði að Sigurjón væri augljóslega ekki borgunarmaður fyrir þessum kröfum en væri tilbúinn til að reyna að gera einhverskonar sátt við slitastjórnina.
Þá sagði Bylgjan, að slitastjórnin krefji Elínu Sigfúsdóttur, sem var framkvæmdastjóri hjá Landsbankanum fyrir hrun og síðar bankastjóri nýja Landsbankans, um 17 milljarða króna í skaðabætur.
Um er að ræða tjón, sem að mati slitastjórnarinnar hlaust af því að annars vegar var ekki gengið að bankatryggingu að fjárhæð 18 milljarðar, sem hafði verið sett fyrir skuldum fjárfestingarfélagsins Grettis, og hins vegar vegna lánveitinga til Straums fjárfestingarbanka, sem fóru fram í byrjun október 2008.
Kröfuhafafundur Landsbankans var haldinn í morgun.