Skuldir ríkissjóðs myndu vaxa um 2,2% af vergri landsframleiðslu yrði breytingartillaga meirihluta fjárlaganefndar við fjáraukalög samþykkt og fullnýtt.
Samkvæmt tillögunni fengi ríkissjóður heimild til að styrkja Íbúðalánasjóð um 33 milljarða króna, að því er segir í fréttaskýringu um fjáraukalögin í Morgunblaðinu í dag.
Að sögn Oddnýjar Harðardóttur alþingismanns, formanns fjárlaganefndar, yrði þetta þannig í framkvæmd að ríkissjóður gæfi út skuldabréf, sem Íbúðalánasjóður myndi svo framvísa í Seðlabankanum í endurhverfum viðskiptum. Bein kaup Seðlabankans á ríkisskuldabréfum eru óheimil og stuðla að verðbólgu, að því er segir í svari bankans við fyrirspurn Morgunblaðsins.