Helgi K. Hjálmsson, formaður Landssamtaka eldri borgara, segist ekki geta haft á móti því að fé verði sótt í Framkvæmdasjóð aldraðra til að milda niðurskurð á heilbrigðisstofnunum. Sjóðnum sé m.a. ætlað að byggja upp heilbrigðisstofnanir. „En það verður að fara að öllu með gát.“
Alls á að draga fyrri niðurskurðaráform á heilbrigðisstofnunum saman um 1,7 milljarða og verða þeir peningar m.a. sóttir í Framkvæmdasjóð aldraðra. Björn Valur Gíslason, varaformaður fjárlaganefndar, sagði í fréttum RUV að þar sé um 450 milljónir að ræða.
„Þetta er kannski ekki alvont en við viljum að farið sé mjög varlega með Framkvæmdasjóð aldraðra. Honum er skipaður ákveðinn sess sem er fyrst og fremst að byggja upp heilbrigðisstofnanir,“ segir Helgi um þessi áform.
Framkvæmdasjóður aldraðra hefur að undanförnu aðallega tekið þátt í rekstri á sjúkrastofnunum en uppbygging er einnig meðal hlutverka sjóðsins. ,,Þetta er afskaplega góður sjóður og hans markmið er mjög gott,“ segir Helgi
Hann gagnrýnir hins vegar harðlega hugmyndir um að ganga á fé lífeyrissjóða vegna aðgerða stjórnvalda.
„Mér hugnast ekki að ef pólitíkusar sjá einhversstaðar sjóði, þá er bara vaðið í þá. Þetta endalausa tal um að bara vaða í lífeyrissjóði og láta þá bjarga öllu. Ég segi bara nei. Þetta er eign okkar eldri borgara, þetta er okkar varasjóður og við fáum laun okkar úr þeim. Við erum ekki einu sinni spurð. Þeir líta á þetta sem sína eign en þetta er svo sannarlega ekki eign þeirra. Lífeyrissjóðirnir eru ekki gegnumstreymissjóðir heldur uppsöfnunarsjóðir. Þetta er fé sem við eigum með nákvæmlega sama hætti og ef við ættum þá á sparisjóðsbók,“ segir Helgi.