Endurskoðunarfyrirtækið PwC hafnar alfarið ályktunum slitastjórnar og skilanefndar Landsbankans um skaðabótaskyldu vegna endurskoðunar ársreiknings Landsbankans fyrir árið 2007 og árshlutareikninga árið 2008. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem fyrirtækið hefur sent frá sér.
Líkt og greint var frá fyrr í dag segir Herdís Hallmarsdóttir að slitastjórnin, sem hún á sæti í, telji að ytri endurskoðendur bankans séu bótaskyldir vegna vanrækslu við endurskoðun reikninga bankans.
Yfirlýsing PwC í heild:
PricewaterhouseCoopers (PwC) hefur borist bréf frá slitastjórn og skilanefnd Landsbankans þar sem settar eru fram ályktanir um skaðabótaskylda háttsemi vegna endurskoðunar á ársreikningi Landsbankans 2007 og könnunar á árshlutareikningum bankans á árinu 2008. Engar fjárkröfur eru gerðar á hendur PwC í bréfinu.
PwC hafnar alfarið þeim ályktunum sem fram koma í bréfinu og þeim staðhæfingum sem hafðar hafa verið eftir fulltrúum slitastjórnar í fjölmiðlum í dag þess efnis að PwC hafi brugðist starfsskyldum sínum í vinnu sinni fyrir Landsbankann.
Hlutverk PwC sem endurskoðenda bankans var að láta í té álit á ársreikningum og ályktanir um árshlutauppgjör. Í því fólst umsögn um það hvort reikningsskilin, sem unnin voru og lögð fram á ábyrgð stjórnenda bankans, hafi verið í samræmi við lög og alþjóðlegar reikningsskilareglur. Niðurstöður PwC tóku mið af þeim upplýsingum sem endurskoðendur PwC höfðu aðgang að á þeim tíma þegar vinna þeirra fór fram.
Endurskoðendur PwC komu ekki að gerð uppgjöra eða ákvarðanatöku í Landsbankanum.
Sendandi
Reynir Vignir, framkvæmdastjóri TSP
fyrir hönd
PricewaterhouseCoopers ehf