Fáir ánægðir með stjórnarandstöðuna

Frá Alþingi.
Frá Alþingi.

Ríflega 16% landsmanna eru ánægð með störf stjórnarandstöðunnar og hefur ánægjan með störf hennar minnkað umtalsvert frá samskonar könnun í vor þegar 22% voru ánægð.

Fram kemur í Þjóðarpúlsi Gallup, að óánægja með störf stjórnarandstöðunnar eykst enn. Sex af hverjum tíu eru óánægðir með störf hennar nú samanborið við 54% í vor.

Spurt var hvort fólk teldi að stjórnarandstaðan myndi standa sig betur eða verr en núverandi stjórnarflokkar í ýmsum málum væri hún í ríkisstjórn. Nær engar breytingar eru á hlutfalli þeirra sem telja að stjórnarandstaðan myndi standa sig betur en ríkisstjórnin, en á hinn bóginn fækkar þeim verulega sem telja að stjórnarandstaðan myndi standa sig verr en ríkisstjórnin.

Þannig fækkar þeim úr 37% í 29% sem telja að stjórnarandstaðan myndi standa sig verr en ríkisstjórnin í stjórn efnahagsmála, úr 42% i 31% í heilbrigðismálum, úr 45% í 37% í velferðarmálum og úr 39% í 29% í menntamálum.

Þá fjölgar þeim talsvert sem telja stjórnarandstöðuna hvorki betri né verri en ríkisstjórnina þegar kemur að frammistöðu við stjórn hinna ýmsu málaflokka. Fjölgunin er úr 27% í 37% við stjórn efnahagsmála, úr 32% í 42% í heilbrigðismálum, úr 33% í 40% í velferðarmálum og úr 40% í 49% í menntamálum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert