Héraðsdómur Reykjavíkur hefur staðfest þá niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins, að Vélar og verkfæri ehf. hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína við sölu á efni til að framleiða höfuðlyklakerfi.
Var talið að fyrirtækið hefði komið í veg fyrir að þjónustuaðilar höfuðlyklakerfa flyttu inn og seldu slík kerfi frá öðrum framleiðendum en ASSA í Svíþjóð. Var brot fyrirtækisins talið alvarlegt og hafði áhrif á sölu á tilbúnum höfuðlyklakerfum beint til neytenda. Samkeppniseftirlitið gerði Vélum og verkfærum að greiða 15 milljónir króna í stjórnvaldssekt. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála lækkaði sektina í 10 milljónir og héraðsdómur staðfesti þá upphæð.
Höfuðlyklakerfi eru aðgangskerfi að fasteignum og samanstanda af mismunandi lásum og lyklum fyrir tiltekna fasteign þar sem þó er til staðar einn höfuðlykill sem gengur að öllum lásum.
Vélar og verkfæri selja m.a. höfuðlyklakerfi og efni til að framleiða slík kerfi frá ASSA í Svíþjóð, og er í einokunarstöðu hér á landi í sölu á efni til að framleiða lyklakerfi af þessum toga. Þjónustuaðilar hafa gert leyfissamninga við Vélar og verkfæri um leyfi til að framleiða, selja og þjónusta kerfin.
Að sögn Samkeppniseftirlitsins bönnuðu ákvæði í leyfissamningunum þjónustuaðilunum að selja höfuðlyklakerfi frá öðrum framleiðendum en ASSA. Unnu ákvæðin því gegn möguleikum þeirra til að hefja innflutning í samkeppni við Vélar og verkfæri og unnu ennfremur gegn möguleikum annarra erlendra framleiðenda höfuðlyklakerfa að ná fótfestu á íslenskum markaði.